Eiga Mosfellingar fleiri prakkara en aðrir? Hvenær á fólk sem vinnur allan daginn - að slá og hriða blettinn sinn? Myndir ...

Ójá, það eru ástæður fyrir öllu - líka bloggleysi. Þessar myndir sýna áhugaleysis ástæður mínar í gær, en svo bætist á hamagangur í rósum og Hvönn, blóðbergi og geldingahnappi sem og fleiri ótrúlega sterkum einstaklingum sem nú hafa fengið fast aðsetur hérna fyrir utan húsið.

Jú, maður er alltaf til í að brosa og sýna allar tennurnar - enda er maður orðinn um níu mánaða svo ekki vantar vinnukonurnar uppí mann..

prakkari7 prakkari2

En eins og venjulega þarf refurinn gamli alltaf af troða myndavélinni bara á kaf uppí mann - svo maður bera gefur stríðnisgrettur og allan pakkann..

Sem betur fer sýndi hann ykkur þó ekki allar hinar grettumyndirnar af mér! 

prakkari3  prakkari1

En svo kom annað lítið kríli líka í heimsókn. Litla skottan er svo yndisleg líka að það hálfa væri - já - miklu meira en nóg. Hún er um tveggja ára skvísan..

Pabbar þessara tveggja eru bræður - svo þessi tvö eru jú bræðrabörn. En það er litla systir mín (litla systir tigercoppers) sem er amma þeirra beggja.

prakkari5  prakkari6

**************************

Nú er maður líka búinn að vera á fullu í blómagarðshönnun, svo ekki hefur maður verið mikið á netinu. Ætlaði að renna á ykkur öll í gær, en þegar ég kom loks inn eftir hrikalega annasaman dag í þökuskurði og grjótaburði og öllu tilstandinu - þá bara hreinlega nennti ég ekki á netið. Ég bara kom inn seint í gærkvöldi, fékk mér að borða og lak svo niður í lazy fyrir framan sjónvarpið og hafði mig ekki upp fyrr en ég bara rauk beint í rúmið.

Sama rullan var svo uppi í dag, hamagangur og læti þar til núna að verða miðnætti, nema núna er ég að lesa ykkur yfir þegar þið lesið þetta - svo þið sem hafið verið í athugasemdakerfinu mínu í síðustu tveim færslum - ættuð að sjá spor eftir mig hjá ykkur í kvöld/nótt/fyrramálið ...

wife-of-today        wife-of-yesterday

Og já - þessar myndir tengjast síðustu færslu.

En ætlaði bara að segja að það er ekkert gaman að reyna að hneyksla ykkur eða vera kaldhæðinn - þið sáuð öll algerlega við mér, enda held ég að þið séuð farin að þekkja mig of vel.

Ferlegt bara - núna þýðir ekkert fyrir mig að reyna að vera "leiðinlegur" með "hneykslanlega" eða "dónalega" færlsu - þið vitið alltaf hvað ég er að meina - og sjáið alltaf við mér í því að vita hvenær ég er að grínast eða ekki grínast.

Jamm, síðasta færsla var sko mjög langt frá því að vera ég. Að sjálfsögðu vil ég að jafnt gangi yfir alla - bæði útivinna og heimavinna - sem og börn eða bara hvað sem er.

En, knús og kramerí út í loftið - farinn að skoða ykkur... luv á línuna!


mbl.is Garðsláttur á ókristilegum tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég vil að nútímakerlingin snúi sér aftur að eldavélinni og uppvaskinu.

 Já, það er af sem áður var. Hér áður fyrr var svo auðvelt að eiga við konur - en í dag - í dag er það álíka auðvelt og berhendisglíma við Ísbjörn.

wife-of-yesterday

Áður voru þær bara bljúgar og blíðar, gerðu allt sem maður sagði þeim að gera og ekkert vandamál.

Þær sátu, stóðu eða lágu rétt eins og maður vildi - hreinlega bara biðu eftir því að maður sagði þeim nákvæmlega hvað og hvernig hlutirnir ættu að vera svo manni mætti líða sem best.

Þær voru heima og elduðu - skúruðu - þurrkuðu af og þvoðu þvotta. Þær bökuðu og elduðu og aldrei vantaði matinn á borðið - né var hann seinn fyrir. Þær höfðu inniskóna tilbúna, pípuna og heitt í baðkarinu - tilbúnar að hjálpa útivinnandi þreyttum eiginmanni svo honum mætti líða sem best. Þær pössuðu börnin og sáu til þess að þau væru ekki að trufla bóndann þegar hann var heima.

wife-of-today

 

En, þetta er allt breytt í dag.

Í dag eru þær harðar og óblíðar, gera ekkert sem maður segir þeim og ætíð einhver vandamál á ferðinni.

Nú standa þær ef maður vill að þær sitji, og sitja ef maður segir þeim að standa - og leggjast bara ekki rassgat þó maður segi þeim að leggjast niður.

Þær bíða ekki lengur eftir því að maður segi þeim hvað maður vill að sé gert til að manni líði vel - heldur gera þær núna bara það sem þeim dettur í hug svo þeim sjálfum líði vel.

Þær berja í borðið, hlaupa frá eldavélinni og uppvaskinu og segja manni að elda sjálfur og vaska svo upp eftir sjálfan mann.. W00t

Þær henda í mann börnunum þegar maður kemur heim - og þjóta svo sjálfar út á kvöldvaktir! "Eru þetta ekki líka þín börn" hreyta þær í mann þegar maður mótmælir - og skella svo hurðum.

driller-bor

Sko, þegar maður kemur þreyttur heim eftir annasaman dag í vinnunni - þá vill maður að húsið sé hreint og maturinn heitur á borðinu, heitt vatn í baðkarinu og börnin sofnuð - frúin heit og falleg og bara ljúfleiki og léttúð í loftinu.

Nútíma konan hefur allt aðrar skoðanir á hlutunum - henda í mann börnunum og hlaupa út að vinna, berja mann ef maður mótmælir og heimtar svo sömu laun fyrir sömu vinnu og maður sjálfur er í og hefur!

Hvað er í gangi eiginlega? Hvert erum við að stefna?

Ég ætla rétt að vona að þetta sé bara smá bóla sem líður hjá á nokkrum árum. Á meðan ætla ég að láta það duga að vera með JapKínTæ-konu í eldhúsinu og aðra eins sem sér um að þrífa bílinn, versla inn og sjá um krakkana þegar þeir eru í heimsókn. Læt dúkkuna duga annarsstaðar - allt þar til nútímakonan er aftur komin í hellinn og farin að gegna bónda sínum..

Ég vil að nútímakerlingin snúi sér aftur að eldavélinni og uppvaskinu. 


Hver slær hendinni á móti daðri? Liggur arfi á lausu í þínum garði? ...

Jæja, hérna eru í boði knús og kossar - raunverulegir kossar og raunveruleg faðmlög! Hver slær hendinni á móti því að vera bæði knúsaður og kysstur í bak og fyrir? Örugglega enginn, held ég! Málið er bara að ef þið hafið eitthvað aflóga af garðblómum og jurtum sem þið eruð að grisja úr garðinum ykkar - fjölær kvikindi - og eruð til í að gefa það bara frekar en að henda því eða urða það, þá er ég til í að koma og sækja það bara - á höfuðborgarsvæðinu nota bene!

villiblóm

Málið er að ég er að gera risastórt blómabeð. Ég sæki mikið af hlutum úr náttúrunni í beðið, steina, rekavið og ýmsar blómategundir líka.

En, það er svo sem takmarkað sem hægt er að ná í svona úr náttúrunni - því hef ég leitað til ættingja og vina sem eru að grisja garðinn sinn og sæki það til þeirra ef þeir hafa eitthvað á lausu.

Því datt mér í hug að athuga með ykkur hérna á netinu, bloggvini og vinkonur - sem og aðra bloggara eða lesendur - að ef þið eruð að laga til í garðinum ykkar og eitthvað fjörært og fallegt fellur út úr norminu þá væri ég glaður að fá að koma og stela því hjá ykkur.

Blóm, tré eða hvað sem er - svo framalega sem það er fjölært og vel lifandi.

Koma svo allir saman ef þið lumið á arfa sem þið viljið losna við, ég kem og sæki..

sólblóm

Eins og ég sagði í upphafi - býð uppá heilmarga kossa og flennimikið knúserí og daður í staðinn. Eins og þið vitið þá er ég ófeiminn við að daðra og algerlega ófeiminn við að knúsast og þannig stúfferí!

Það væri náttúrulega algerlega toppurinn ef kaffisopi og spjall fylgdi með - því ég elska sopann með hjali og daðri í sambland.

Getið líka sent mér skilaboð á E-mail ef þið þorið ekki að láta það uppi hérna að þið séuð að sækjast eftir smá daðri og kerleríi frá mér með blómaboði sem afsökun! *glott*...

Pósthólfið mitt er; tigercopper at hotmail.com ...

Luv ya all ... sérstaklega ef þið eruð svona late blómabörn sem eruð að grisja hjá ykkur svona seint. En næsta víst er að fólk er svo sem líklega löngu búið að grisja garðinn - enda vorið löngu liðið. Samt, maður skoðar allt - nema njóla og lúpínu ... knús í loftið!


Betra er að sjá fyrir og geta varið sig - en liggja í móki á meðan ráðist er á mann með kjafti og klóm. Hvað gera einmanna ljóskur ef internetsins nýtur ekki?

Það er næsta víst að fólk sem situr fyrir framan tölvuna á eftir að lenda í miklum vandamálum áður en Júnímánuður er úti. Nýjustu fregnir eru nefnilega ákaflega sorglegar og reyndar mjög truflandi, þannig séð. Ég mun sannarlega gera mitt til að lenda ekki í hremmingum en auðvitað mun ég líka lenda í þessu! En, er þetta svo alvarlegt - eða er þetta bara bóla?

stopcomputering

Hvernig væri það ef við lentum á allra síðustu netsíðu internetsins? Er hægt að fylla internetheiminn þannig að ekki sé hægt að setja fleira inn - engar fleiri heimasíður og engin blogg í viðbót? Hvað ef einungis væri hægt að uppfæra síður sem þegar eru komnar á netið en ekkert hægt að bæta við. 

En, sem betur fer er þetta líklega algerlega óhugsandi - tækninni fleygir fram og endalausu gagnamagni er hægt að troða í þennan stórkostlega heim sem er þarna inni í tölvunni okkar. Alltof margir eru háðir netinu og margir hafa jafnvel engan að nema internetvini og internetvandamenn. Endalaust skrýtið hvað maður finnur fyrir því ef maður er tölvulaus smá tíma, fráhvarfseinkennin láta alls ekki á sér standa og maður sefur varla af áhyggjum ef maður kemst ekki á netið stundum. Er netið einmannaleika-bani?

funnynabor

Jæja, ég fékk staðfestinu á því í dag að nágrannakonan mín er með mig á heilanum. Hún er stalker, ég segi ykkur það satt! Fyrir utan það að hafa dregið frá á kvöldin - sér í lagi þegar er myrkur og hún sér að ég er heima - þá er hún að dingla sér hálfnakin fyrir framan gluggann til að sýna mér - en auðvitað er ég siðprúður kappi sem læt sem ég sjái ekkert og einbeiti mér að kanelsnúðunum sem hún tróð í póstkassann minn í gærkvöldi.

Í dag kom hún angandi af hinum ýmsu forboðnu ilmolíum - hafði greinilega eytt heilmiklum tíma fyrir framan spegil - í baði - með rúllur í hárinu og hellt svo tveim lítrum af "Angel" yfir sig í þokkabót sem þó gerði ekkert annað fyrir hana en að vara mig við komu hennar þar sem ég lá í makindum í sólbaði - fann nefnilega heiftarlega mikið fyrir ilmfljótinu sem hún sturtaði yfir sig - löngu áður en hún kom að pallinum mínum.

LilystoraÉg fékk staðfestingu á því að hún er að lesa bloggið mitt í dag.

Hún birtist fyrir utan sólpallinn - en ég hef pallinn "læstan" innanfrá til að forðast óvæntar innrásir ef ég skildi sofna værum blundi í sólbaði, vil ekki vakna með óðan páfagauk sitjandi ofaná mér - if you ketzh mæ drift. Hún var útlits eins og tígurynja í veiðihug og ham.

Hún krosslagði hendur ofan á pallavegginn og hallaði sér yfir hann með nýrúllað hár og augnhárin rúlluðust líka langt aftur fyrir hnakkann. Hún blikkaði þeim í sífellu - en hefði sennilega ekki átt að gera það því frá öðru auganu skoppaði augnhár eins og gormur út í loftið og hvarf. Stuttu síðar lenti það með soghljóði á bringunni á mér, hún afsakaði sig samt ekkert ..

"Ég veit hvað þú heitir - hvernig fannst þér kanelsnúðarnir sem ég gaf þér í gær?" óð út úr henni og hún teygði hendina inn fyrir pallvegginn til að taka við augnhárunum sem ég hafði með erfiðsmunum náð að slíta af bringunni á mér, hugsa að hún hafi notað kennaratyggjó til að festa þetta drasl upp.

"Ha, veistu hvað ég heiti" hváði ég undrandi - nafnið mitt er náttúrulega á póstkassanum.

"Jamms, veit sko gælunafnið þitt - veit að það er Högni" sagði hún sigri hrósandi því ég hafði ætíð verið bara kurteis við hana en aldrei sagt henni neitt annað en fullt nafn en ekki gælunafn - enda er það ekki ætlað nema fjölskyldu og vinum - en hún var hvorugt.

donkyintheair

Ég skellti uppúr, horfði á hana og svei mér þá ef hún varð bara ekki eins og Asni í lausu lofti - enda vissi hún ekkert af hverju ég hló.

"Ég er ekki kallaður Högni, hef aldrei verið kallaður Högni" sagði ég og hugsaði með mér að engin nokkur manneskja hefur ever kallað mig Högna - nema ein - Jónína Dúa, bloggvinkona mín sem ég hef víst verið dálítið óþekkur við og bullað mikið í kommentakerfinu hennar, og hún kallar mig Högna Hrekkvísa fyrir bragðið. Nú vissi ég því að annaðhvort er þessi skrýtna nágrannakona mín - Jónína Dúa - eða þá að hún hefur lesið bloggið mitt, en í síðustu færslu eða þar síðustu - kallaði Jónína mig einmitt Högna í athugasemdakerfinu mínu.

"Víst eru kallaður Högni - hef áreiðanlegar heimildir fyrir því" sagði hún og glotti eins og hún væri að taka þátt í einhverju plotti um að "koma upp um mig" - og greinilega sást nú eftirvænting um verðlaun í augnráði hennar fyrir dugnaðinn.

"Þú ættir ekki að trúa öllu sem þú ert að lesa á netinu, það þarf ekki endilega að vera rétt og satt" sagði ég við kerlinguna og fylgdist vel með vandræðalegum svipnum sem birtist á henni - ég skellti uppúr en hún varð aftur eins og Asni.

"Ég var ekkert á blogginu þínu að lesa" sagði ljóskan! Bingó - þarna kom staðfestingin - hún er að lesa bloggið mitt. Enda hafði það löngu komið fram að hún er að troða inná mig kanelsnúðum öllum tímum, ekki sagði ég henni að ég elska slíka - hún las það náttúrulega á blogginu mínu.

bill-i-heimsoknEn ég hætti að brosa því ég áttaði mig allt í einu á því að þessi kona gæti vel verið hættulegur óvinur ef út í það er farið. Ég hugsaði um aðfarir hennar við að komast að mér - og svo hugsaði ég um það hvernig frúin leggur bílnum sínum. Á meðan venjulegt fólk leggur í venjulegum bílastæðum þá eru bílarnir hennar ætíð upp um allar tryssur.

bill-i-heimsokn2

Hún er þessi fullkomna ljóska sem finnur ekki leiðarvísinn að því hvernig maður á ekki að leggja bíl - og hvar ekki. Ég ákvað að hætta ekki á það að hún kæmi einn daginn bara á bílnum - inná sólpallinn til mín. Ég brosti til hennar og bauð henni að koma innfyrir - ég hafi verið að laga kaffi rétt áður og hvort hún vildi ekki kaffi - og kanelsnúða.

Hún gerði sig alla til og reyndi að festa aftur á sig kolsvarta krulluna sem áður skaust af augum hennar. Síðan tipplaði hún á háum hælum inná pallinn minn og settist dömulega við borðið en ég flýtti mér að ná í kaffið. Síðan áttum við saman nokkuð langan og undarlegan tíma þarna á sólpallinum - í sjóðandi hita og sól - hún ætlaði sér greinilega eitthvað annað og meira en kaffi og kanelsnúða. En það er önnur saga.


mbl.is Einsemd internetsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver fer í sólbað fyrir klukkan sjö á laugardagsmorgni? Jú, sá bilaði ...

Hvað er í gangi eiginlega? Klukkan er rétt að verða sjö að morgni Laugardags og ég var í sólbaði áðan. Þvílík dýrð og þvílík sæla. Ég rétt vona að sem flestir landsmenn hafi eins dásamlegt veður og ég hérna, en næsta víst er að þetta er í fyrsta skipti sem ég fer í sólbað fyrir klukkan 7 að morgni.

norrdinn

Ætlaði eiginlega ekkert að kíkja hingað inn - en hef ennþá sirka hálftíma svo ég ákvað að hlaupa hérna inn og kasta helgarkveðju á ykkur öll. Verð á ferðinni eitthvað í dag - og í kvöld.

Vona að þið hafið öll tækifæri til að gera eitthvað ljúft og skemmtilegt með ástvinum eða bara vinum - núna um helgina. Þakka ykkur öllum sem hafið verið að kíkja á mig en ég mun eitthvað hamast í athugasemdakerfinu ykkar um helgina - eins og ég reyni ætíð.

 

Sendi bara knús út í þennan gullfallega laugardagsmorgunn og bið ykkur um að ganga hægt um gleðinnar hús svo ekki vakni mús - eða þannig. Luv ya all to píses ...


Úlfur, úlfur ... fé ausið í tilgangslausar rannsóknir og fólk sent á hálendið til að njóta útiverunnar - á kostnað skattborgaranna.

Heilmikið fár á sér nú stað á landinu, en staðfestar heimildir eru fyrir því að týndi hlekkurinn hafi sést á ferli hér og að hann hafi skilið eftir spor sín á landinu í vikunni. Hópur vísindamanna er kominn til Íslands til að rannsaka málið og mun hópurinn dvelja m.a. á Bessastöðum, enda málið hið alvarlegasta og forseti lýðveldisins hefur óskað eftir því að fá óritskoðaðar fréttir beint inn á eldhúsborð.

tyndurbjorn

Mikil leit hefur nú staðið yfir um víðan völl - og ekkert til sparað, enda ekki á hverjum degi sem fólk telur sig hafa séð spor eftir Björn nokkurn Bjarnason. Nú hefur tuttugu manna hópur verið á vappi umhverfis dómsmálaráðuneytið í leit af fleiri sporum eftir Björn - en lögreglan hefur varist allra frétta af málinu, enda undir Björn settir og hætta á að Björn eti upp eftirlaun löggumanns ef út í það er farið.

 Þrátt fyrir talsverða leit af sporum eftir Björn - hafa engin slík fundist - þrátt fyrir viðamikið svæði allt í kringum dóms- og kirkjumálaráðuneytið - og einnig var leitað í kringum önnur ráðuneyti, en allt án árangurs - Landspabbi borgar leitina og tekur á sig allan kostnað. Enda er talið að möguleiki sé á því að sporin sem voru talin vera eftir Björn - séu í raun og veru bara eftir Landspabba sjálfan.

landspabbinn

Sögur herma að Landspabbi hafi verið síðasti maðurinn sem sá Björn, og að orðsporasagan sé frá honum runnin. Ekki hefur það þó fengið staðfest.

Vitað er að Landspabbi hefur ætíð reynt að hafa hendur í feldi Bjarnar, enda hefur feldurinn mikið tilfinningalegt gildi þar sem karlinn hefur lengi eldað grátt silfur fyrir Björn.

Fleiri liggja undir grun, en ekki náðist í heimildamann til að fá staðfest hverjir viðkomandi eru. Greinileg ummerki liggja víða og bera vott um að einhverjir stórir í þjóðfélaginu séu að reyna að hylja spor og önnur ummerki sem sést hafa eftir Björn. Þrátt fyrir heilmiklar tilraunir til að breiða yfir sporin - hafa þónokkrir staðfest að Björn hafi verið á ferðinni og eru til nokkrar myndir því til vitnis. Margar myndanna sýna Björn í vafasömum félagsskap, en myndirnar segja meira en nokkur orð.

 bjorn-i-fenuVandræðalegustu myndirnar sýna spor eftir Björn í Fé landsmanna og hefur því verið kastað fram að þar sem fé er - þar finnast spor eftir Björn. Því hefur mikið verið leitað til bændastéttarinnar eftir aðstoð í leitinni en slíkt hefur þó heldur lítinn árangur borið.

Frú Dúna á Kirkjubóli segir talsvert af ferðamönnum hafa litið við í fjárhúsum sínum og talið sig hafa séð spor eftir Björn þar, en við nánari leit hafi komið í ljós að sporin voru bara eftir steinhellur sem frú Dúna hafði tekið upp. "Björn hefur ekki sést í fjárhúsum mínum" segir frú Dúna, enda þekkt fyrir Bjarnagildrur sínar sem liggja víða í kringum fé hennar. Hún telur að sporin sem talin eru vera víða um landið liggji helst hjá lögregluembættunum. Þar sé Björn í ham ...

logguleitarflokkur

 

Mikil leit fór því fram í gær - í kringum lögregluembætti landsins - og viti menn - heilmikil slóð og spor út um allt liggja þar allt um kring eftir Björn. Hópar lögreglumanna liggja undir grun um að eyða tíma í að ganga um hálendið í leit af sporum eftir Björn - og allt á stóru tímakaupi hjá skattmann.

leitarflokkarnir

Heilmikil fundarhöld hafa verið til að finna leiðir til að koma böndum á Björn, en nokkrar nefndir hafa verið skipaðar til að fara yfir mál fundanna - og svo hafa líka verið skipaðar nefndir til að fara yfir álit nefndanna sem fara yfir mál fundanna og enn aðrar nefndir til að finna svo út úr því hvaða nefndir áttu að skoða hvaða mál.

Uppistand á fundunum varð þegar óð belja ruddist inn á síðasta fund og heimtaði fé gegn frekari upplýsingum um Björn - en beljan sú er talin hafa verið í félagsskap misgáfaðra heimilisdýra og svo hefur Björn verið grunaður um að hafa sést með beljuna í eftirdragi um all nokkurt skeið. Mynd náðist af belju Bjarnar, en ástæða þykir til að vara viðkvæma við því að skoða myndina nánar.

mad_cow

Myndir staðfesta og segja mun meira en nokkur orð og því mun það heillavænlegast að segja sem minnst við þessa mynd. En, fleiri myndir náðust af henni sem ekki voru birtingahæfar - og biðjumst við velvirðingar á því.

Mikil leit hefur einnig nú staðið yfir af nýlegum myndum af Birni. Eitthvað hefur það reynst erfitt því yfirleitt hefur Björn verið horfinn af vettvangi þegar ljósmyndarar mæta á svæðið - og lítið verið eftir annað en spor og ummerki eftir Björn.

Ein mynd náðist þó nú nýverið og hefur henni nú verið komið til allra fjölmiðla til sýningar svo almenningur geti varið sig og sína ef Björn sést í nágrenni við heimili þeirra. Ráðlagt þykir að reyna ekki að ráðast á Björn, ekki ögra honum og alls ekki snúa við honum baki. Björn er með lítið hjarta og er hræddari við okkur en við gagnvart honum. Standa skal fast á sínu - en ef til átaka kemur á skilyrðislaust að kasta fé í Björn, þá mun hann róast og leggjast á meltuna - eggjakast er ekki talið skila neinu.

polar bear


Hér er svo nýjasta myndin sem náðist landsskelfinum. Okkar Björn er talinn vera þessi til hægri - enda sýna spor hans að hann hefur ætíð gengið í hringi og engu komið áleiðis, þannig séð.

Von okkar er sú að fólk taki lífinu með ró - hætti að sjá spor eftir Björn um allar tryssur - þegar vitað mál er að úlfur úlfur skilar engu nema fésóun og heilmiklum tímastuldi frá vinnandi lögregluembættum á landsvísu.

Munið að prenta út myndina þar sem Björn er á vappi með félögum sínum - ykkur og börnum ykkar til varnar, gætið að heimilisdýrum líka.


mbl.is Leit að hálendisbirni heldur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mommy, when i grow up I want to be a total bitch just like you. What the Fu**?

 Gömul mýta hermir að á landsvísu fái "góðar stelpur" ekki nema brot af þeim happadrætti sem "vondar stelpur" fá. Klæðaskáparannsókn sem framin var í óþökk landsmæðranna - sýnir að ekki er um neitt að villast, það borgar sig ekki að vera "góða stelpan" í hópnum ef þú vilt fá það - ehh sem - þú veist. Slæmar stúlkur eiga að jafnaði mun fleiri G-strengi en góðar stúlkur. Það sem veldur þessum mismun - er svokallað Oprah-syndrúmið.

bitchFormlega kalla höfundarnir, Túrhestur Johnsen og samstarfsmennirnir - sem eru villigeltir - orsökina á yfirgnæfandi fleiri G-strengjum vondu stúlknanna - G-engdarlausa G-ræðgi G-kynslóðarinnar.

Vondu stúlkurnar eru hin sönnu myrkraöfl, en skapgerðareiginleikar þeirra sameina heimtufrekju, hvatvísi og G-spennufíkn siðblindingjans. Einnig eru þær yfirmáta kænskar og slægvitrar. Flestar þeirra eru líka hinar mestu tíkur gagnvart góðu stúlkunum og sýna þær klærnar ef þær góðu sjást í G-strengjadeild Hagkaups. Strákamálin hjá góðu og slæmu stúlkunum er mjög álíkt.

sheeping

Heyrst hefur að góðu strákarnir sitji ekki við sama borð og vondu strákarnir - því bæði góðu stúlkurnar og vondu stúlkurnar vilja bara vonda stráka. Það er því þannig - því miður - að góðu strákarnir sitja eftir með ullarbragð á tungu og oftar en ekki ganga þeir um jarmandi eftir einhverri tilbreytingu. Sama skjátan er ekki góð til lengdar.

drama-1Mikið er um uppgerðaryfirlið og nær dramatíkin stundum svo langt að vondu stúlkurnar liggja í hrönnum um stræti og torg - því vondu strákarnir grípa þær ekki þegar þær falla niður, enda jú vondir strákar. Þar sem þær vilja ekki góðu strákana - þá eru þeir náttúrulega ekki nærstaddir til að taka við þar sem vondu strákarnir hlupu undan. Góðu stúlkurnar aftur á móti fara mun fagmannlegra að, enda vel upp aldar og siðprúðar með eindæmum. Þær gera bara ekki neitt, standa bara álengdar og stara á vondu strákana hlaupa undan vondu stúlkunum.

 small-car

Sumir góðu strákanna eru samt Félagsleg rándýr á háu stigi - en þegar þeir koma á bílnum sínum og bjóða vondu eða góðu stúlkunum á rúntinn - þá falla þær yfirleitt í yfirlið af vanþóknun, enda eiga góðu strákarnir yfirhöfuð sjaldan flotta bíla - hafa eytt öllum sínum vinnulaunum í að kaupa eitthvað sætt handa mömmunum sínum.

Góðu strákarnir eru samt sagðir vera mjög góðir á kynlífssviðinu og í rúminu - en þar sem þeir eru góðir strákar hafa þeir ekki verið með neinum stúlkum í bólinu - svo ekki er að marka þá könnun ýkja mikið í raun og veru. Næsta víst er að úrtakið í þeirri könnun hefur verið fámennt og frekar snubbótt.

hurry_up_bitch

Vondu strákarnir eru hins vegar mjög miklir ruddar, fara með bæði góðar og vondar stúlkur eins og þrælana sína. Þeir eru sagðir lélegir í bólinu - að þeir liggji bara grafkyrrir og láti vondu stúlkurnar sjá um hvatir sínar.

Auðvitað fá þeir ekki góðar stúlkur - því góðar stúlkur láta ekki góma sig uppí hjá vondum strákum.

Skammtímasambönd eru ætíð einu samböndin sem vondu strákarnir standa í - en eftir stutta og snubbótta þjónustu við þá - henda þeir vondu stúlkunum á Guð og Gaddinn, en halda eftir G-strengnum þeirra - enda vondir perrastrákar.

Irony-dead-end

Það er kaldhæðni að þessi hringavitleysa öll er "Dead End". Yfir höfuð eru það bara vondir strákar og vondar stúlkur í G-streng sem fá eitthvað fyrir sinn snúð. Hvorugur hópurinn er talinn eftirsóknaverður - og alls ekki til þess fallnir að viðhalda samböndum og standa í barneignum.

Hins vegar eru bæði góðir strákar og góðar stúlkur talin vera tilvalin í bæði langtímasambönd og barneignir til að viðhalda mannkyninu. Þess vegna er það líka kaldhæðni að þar er líka dauður endi - enda eru báðir hóparnir "góðir" og fara ekki á fjörurnar að fyrra bragði - og því aldrei í bólið með neinum, og því munu sennilega góðu G-enin deyja út áður en langt um líður.

Hvað sem líður - þá elta góðir hópar vonda hópa án þess að gera neitt meira í því, enda góður hópur. En vondir hópar þrá og elta góða hópa - en lenda sífellt uppí hjá öðrum vondum hópum og því er það alltaf sami hringurinn þar á ferð. Over and out ...

*************

Ok, ég veit - þetta var algert bull. En, mér finnst þetta álíka mikið bull og greinin sjálf sem ég bloggaði við. Reyndar er það vel trúverðugt að Naughty girls geta fengið hvern sem er í bólið - og óþekkir strákar reyna miklu meira en góðir - svo þar af leiðandi lenda þeir oftar í bólinu með bara hinum og þessum. En, rannsóknir og kannanir á svona hlutum eru oftar en ekki bara bull finnst mér, þannig séð.

Svo vil ég þakka ykkur kærlega kæru bloggvinir fyrir ljúf orð, knús og hjörtu í síðustu færslu - þótti gott að henda þessu frá mér en segi ykkur það að þegar ég skrifaði þetta þá eyddi ég lengri tíma við þennan atburð en ég hef nokkurn tíman gert - og það var bara sárt. Samt truflar þessi minning mig ekki neitt - þannig lagað - í dag. Ég verð að líta yfir ykkur á morgun/annaðkvöld, en ég er orðinn svo sybbinn að ég veit að ég mun ekki geta lesið allt hjá ykkur núna og meðtekið það allt. Vona að þið hafið ljúfa nótt öll sömul og njótið veðurblíðunnar sem við höfum verið að fá. Ljúfar kveðjur í loftið ..


mbl.is Hvers vegna komast „vondir strákar“ yfir fleiri stelpur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna, hvers vegna ... hvers vegna gerast ófyrirséðir atburðir og afhverju þurfa þeir stundum að vera svona skelfilegir?

Deadconfederate

Drengurinn ungi var í sjokki, hann starði skelfdur á það sem fyrir augnabliki hafði verið lifandi mannvera - galandi eitthvað og iðandi af lífi. Þetta sem lá við fætur hans núna var hins vegar eitthvað svo óhugnanlega skelfilegt að hjarta drengsins stóð í stað, hann andaði varla, vildi ekki hræða þennan óhugnað meira en þegar var orðið.

Hann var ungur, einungis 16 ára, hafði fátt óhugnanlegt séð um æfina - hvað þá eitthvað eins ljótt og skelfilegt og það sem núna blasti við honum. Hann leit niður á götuna og beint framan í viðbjóðsleg galopin starandi augu sem voru blóðsprungin í rifnu andliti, andlit sem hékk einhvern veginn saman en samt ekki.

 

Ungi maðurinn var nýkominn á erlenda grundu ásamt frænda sínum, báðir 16 ára og báðir þokkalega kátir og ljúfir drengir sem ekkert máttu aumt sjá án þess að reyna að bjarga því. Þeir höfðu fengið góðfúslegt leyfi foreldra sinna til þessa ferðalags - tveir ungir sveinar einir á ferð til sólarlanda í 3 vikur, hvernig gat lífið orðið dásamlegra? Ekkert skal koma í veg fyrir dásamlegt frí og fátt gæti reyndar skemmt fyrir þeim ferðina því báðir voru bindindistöffarar, hvorki tóbak né áfengi voru ferðafélagar þeirra.

Ungi maðurinn okkar var lífsglaður og uppfullur af gleði til heimsins, Kátur með eindæmum og gleðin geislaði úr augum hans við hvert tækifæri. Þeir frændur voru búnir að vera örfáa daga á sólarströnd og búnir að kynnast þónokkrum ungmennum sem voru líka þar á ferðinni. Á hverju kvöldi var haldið á diskótek og dansað og daðrað langt fram undir morgun. En ætíð var gleðin í fyrirrúmi og stutt í skellihláturinn.

colagetop

Eitt kvöldið hafði hópur ungmenna ákveðið að fara á ákveðið diskótek sem ekki hafði áður verið farið á en allir vissu hvar var. Eitthvað voru frændurnir seinir fyrir og hópurinn kominn til að ná í þá áður en báðir kláruðu sturtu eftir daginn og ekki uppáklæddir. Það var handagangur í öskjunni og okkar drengur lætur frænda sinn fara fyrst í sturtuna. Þegar það er búið er hópurinn kominn á hreyfingu og orðinn eitthvað óþolinmóður - svo ungi maðurinn okkar segir frændanum bara að fara með hópnum, sjálfur ætlaði hann að fara í sturtu í rólegheitum og koma svo og hitta hin öll á diskótekinu, hópurinn fer og frændinn með.

Ungi maðurinn okkar fer í sturtuna, gefur sér góðan tíma og lagar sig svo vel til - enda mikill diskóbolti og heilmikil tískufatakappi, allt átti að vera fullkomið. Hann lagar sig til og skellir sér af stað labbandi. Klukkan var vel yfir miðnætti en það skipti engu því þessi staður var alls ekki slæmur, engin afbrot og fátt um rán eða glæpi. Því ákveður ungi maðurinn að stytta sér leið yfir stóran móa - og kemur flottur hinu megin út af móanum. Þar er lítil þröng gata sem liggur beina línu að diskótekinu sem hópurinn fór á svo stutt var þaðan.

Drengurinn labbar af stað eftir götunni, reyndar uppi á gangstéttinni. Hann hafði ekki labbað lengi þegar hann tekur eftir hávaðahrópum, líkt og þegar menn eru að rífast - hann gengur lengra og sér þá framundan á sömu gangstétt fullorðinn mann sem baðar út höndum og er að hrópa eitthvað á útlensku sem var óskiljanlegt drengnum. Drengurinn lítur yfir götuna - þangað sem maðurinn horfði og hrópaði - og sér þar annan mann sem baðar líka út höndunum og hrópar eitthvað álíka fjandsamlegt yfir götuna.

Eitthvað setur drengurinn þetta ekki fyrir sig, þetta virtist ekki vera neitt alvarlegt svo ekki hræddist drengurinn - enda virtist engin ástæða til þess. Hann gengur nær og nær og því nær sem hann kemur manninum sér hann að viðkomandi er greinilega að rífast við þann sem staddur var hinu megin við götuna. Bílum var þétt lagt meðfram gangstéttinni og stutt bil á milli þeirra. Þegar drengurinn kemur nánast að manninum sín megin götunnar - tekur maðurinn allt í einu undir sig stökk - og æðir á milli tveggja kyrrstæðra bíla og veður út á götuna í átt að hinum manninum. Drengurinn snarstansar og horfir á eftir manninum út á götuna, enda bara 2-3 metra frá honum.

En, þá gerist allt svo skelfilega hratt - en samt svo rosalega hægt að drengnum fannst hann allt í einu vera staddur í bíómynd þar sem allt var sýnt í hægagangi.

bilaklessa

Maður hleypur út á götuna - og bíll kemur á brjálaðri ferð - bíll skellur á manni sem hreinlega flest út á framhluta og glugga bílsins en síðan - þegar bíllinn snarstansar - kastast splundraður líkami mannsins hátt í loftið og skellur með veini og brothljóðum niður á malbikið. Tíminn stóð kyrr, ekkert heyrðist nema eitthvert undarlegt skelfingavein hinu megin við götuna - og annað skelfingarvein úr einhverjum sem kom út úr bílnum - en drengurinn bara starði skelfdur og gekk í dái í átt að því sem stuttu áður hafði verið hlaupandi og gargandi mannvera.

 

Fáir voru á ferli á þessari götu svo drengurinn gekk í leiðslu óhindrað beint að þessari skelfilegu sýn sem nú blasti við. Rétt áður en drengurinn kom að hrúgunni sem lá á götunni - gekk hann fram á fótlegg sem bara lá þarna einn og yfirgefinn á götunni, hjartað staðnaði en áfram gekk drengurinn yfir blóðslóð - alveg að þessu aumkunarverða flaki sem nú lá á bakinu á götunni. Drengurinn horfði beint niður fyrir sig - beint í skelfingu lostið andlit í dauðategjunum. Hryglandahljóð, uml.. augun fyrir neðan hann störðu beint í augu drengsins og á einu örstuttu andartaki lyftist afskræmt og sprungið höfuðið upp svo rusl lafði niður aftur úr því - heilinn örugglega skaust upp í huga drengsins sem horfið í vantrú niður á þennan hrylling.

Hann starði enn og fann allt í einu að einhver tók í axlirnar á honum og reyndi að draga hann burt - en drengurinn var lamaður, hann horfði á tætt andlitið með starandi augun sem horfðu að því er virtist beint í hans eigin augu. Sekúndubroti síðar skall höfuðið aftur niður - en óhljóðin sem bárust frá molnaðri höfuðkúpunni þegar hún skall á götuna aftur - bergmála ennþá í huga unga drengsins. Hann losnaði allt í einu úr leiðslunni, var tosaður burtu frá afskræmingunni sem lá á götunni - heilmikið var sagt við hann en hann skildi ekkert af því og heyrði mest lítið af því. Hann var leiddur að vegg og var látinn setjast niður, stuttu seinna heyrðist í sírenum og fleira og fleira fólk bættist í hóp þeirra sem komu til að sjá hvað hafði gerst. Drengurinn var skilinn eftir einn. Hann stóð upp, horfði í átt að hryllinginum - lokaði augunum augnablik, en opnaði þau strax aftur því hann sá samstundis starandi blóðhlaupin augu í afskræmdu og sundurtættu andlitinu birtast.

Death-thum

 

Hann gekk rólega í burtu, hann var grátandi. Hann var með mikinn ekka og gráturinn kom beint frá hjartanu. Kátínuglampinn og brosvirpan sem ætíð voru meitluð í augum og andliti drengsins voru horfin - en þess í stað var nú sorg og hryllingur - andlitið unga var frosið og augun voru grátbólgin. Góði Guð, hugsaði hann. Afhverju þurfti þetta að gerast? Afhverju afhverju afhverju afhverju ... afhverju er dauðinn svona grimmur og ætíð svona stutt í burtu frá okkur?

Smá saman hjaðnaði ekkinn og gráturinn dó hljóðlega út inn í nóttina. Drengurinn tók allt í einu eftir því að sólin var komin upp - hann leit á klukkuna - það var kominn morgun allt í einu, hann hafði gengið alla nóttina eitthvað án þess að átta sig á því. Hann hrökk við, frændi minn - hann hlýtur að vera hræddur um mig því ég kom ekki á diskótekið. Æi, aumingja frændi hugsaði drengurinn - hann fann út hvar hann var staddur - og hann kom sér til baka með það sama. Frændinn var að sjálfsögðu vitstola af áhyggjum enda hafði hann ekkert heyrt í drengnum alla nóttina og vitandi hve samviskusamur drengurinn var - vissi hann að eitthvað hræðilegt hlaut að hafa gerst, enda sjá hann það strax í andliti drengsins er hann labbaði inn í íbúðina.

Drengurinn varð að útskýra undarlega fjarveru sína - og saman fóru frændurnir aftur á þennan hræðilega stað daginn eftir. Honum leið illa, hjartað hamaðist og tár byrjuðu að renna því nær sem hann kom að þessum skelfilega stað. En hann ákvað að hann ætlaði sér ekki að láta undan, hann ætlaði sér að horfast í augu við hvað sem þar nú beið.

Sem betur fer hafði allt verið fjarlægt, en eftir stóðu krítaðar myndir af einhverju hrúgaldi sem ekki hafði mannsmynd í sér - en þó þekktu drengirnir mynd af stökum fótlegg sem teiknuð var spölkorn frá hrúgaldinu sjálfu.

Það sem eftir lifði af sólarferðinni eyddi drengurinn í móki - hann reyndi að einbeita sér að því að öllu því góða sem til var í heiminum til að draga það yfir þennan skelfilega atburð. Hann svaf lítið og enginn var kátínan og hláturinn - en hann hvatti frænda sinn til að skemmta sér með hópnum til að eyðileggja ekki ferðina fyrir honum líka. Eftir sat drengurinn grátandi á kvöldin en lét frændann aldrei sjá hve mikið hjarta hans var brotið og sálin í mikilli flækju.

Sunset

 

Það var ekki fyrr en hann kom aftur heim að hann fékk hjálp - áfallahjálp var ekki til - ekki einu sinni orðið. En drengurinn átti móður sem var hreinasta galdrakvenndi. Hún náði strax tökum á drengnum, neyddi hann til að tala um allt sem skeð hafði - lét drenginn tala og tala - og gráta og gráta og að lokum var drengurinn gersamlega uppgefinn og algerlega búinn. Það tók galdrakonuna aðeins örfáa daga til að fá drenginn til að brosa aftur, en - hún sá að brosið náði ekki til augnanna - og glaði káti glampinn var horfinn.

Mörgum árum seinna kom glampinn aftur - en í hvert sinn sem drengurinn hugsar til baka - þá er það skelfilegt mulnings- og beinabrotshljóð sem bergmálar hátt og grimmilega í huga hans sem minnir hann á afskræmt höfuð sem skall aftur fyrir sig á götuna eftir að hafa lyft sér upp í einhverjum dauðateygjum - og starandi augun sem horfðu skelfingu lostin beint í augu drengsins fylgja honum grimm eftir ennþá.

Hugsunin er mjög mild í dag, langt frá því að vera skelfileg - en ef drengurinn dvelur of lengi með hugann við þennan atburð - þá renna tár fyrir hönd þessarar vesalings mannveru sem hlaut þarna svona skelfilegan endir.

Ég mun ekki setja inn athugasemdir hérna við þessa færslu. Mín athugasemd - er færslan sjálf. Skoða ykkur öll á morgun, can´t do more tonight ..


Stóriðjufyllerí, er ísbjörn skotinn - í fjallkonunni? Er fjallkonan kannski bara með byssu tilbúin að skjóta Björn?

Já, var það ekki týpískt - mótmælaspjöldin hangandi í beinni sjónlínu yfir höfði okkar virta forsætisráðherra á meðan hann flutti þjóðhátíðarávarpið. "Ríkisstjórnin brýtur mannréttindi" stóð á því spjaldi sem ég tók eftir í sjónvarpinu - en auðvitað fáum við ekki að sjá svoleiðis myndir í dagblöðunum.

forsaetisradherrann

Veðurguðirnir voru hátíðargestum hliðhollir, sól og blíða - varla að hár á höfði hreyfðist. Ég hef ekki heyrt hve margir sóttu hátíðarsamkunduna á austurvelli, en það var þéttsetið og staðið að sjá. Mér fannst hálf skondið að sjá þessi mótmælaspjöld sem stóðu í beinni sjónlínu fyrir aftan Forsætisráðherrann þar sem hann stóð í ræðupúlti, en svona mótmæli eru mun betri en einhver æsingur og hamagangur að mínu mati.

 

 

fjallkonanfrida

Nú, ekki vantaði fjallkonuna fríðu. Að venju var einhver fögur snótin fengin til að flytja stutt innlegg í hátíðina. En nú hef ég aldrei pælt í því hver fjallkonan er - fyrir hvað á hún að standa, á hún að hafa eitthvað þýðingarmikið að segja okkur - eða er hún bara skraut, gjörningur í hátíðarbúning sem á ekki að hafa neitt sérstakt að segja heldur bara vera hluti af "uppákomum" þjóðhátíðardagsins?

Ætíð hafa fjallkonurnar okkar þó verið til mikilla prýði - fallegar og tígurlegar, með ljúfan þokka og setja heilmikinn svip á það sem fram fer á Austurvelli á þessum hátíðardegi. Hvaða erindi hún raunverulega á - það hef ég aldrei spáð í en ef einhver þekkir sögu fjallkonunnar og hvaða tilgangi hún raunverulega þjónar á þessum degi - þá væri ég kátur ef sá vitri leyfir mér og þeim sem ekki hafa spáði í tilgang hennar - að njóta vitneskjunnar með sér.

isbjorninn

En annað og mun leiðinlegra málefni, eða þannig séð erfiðara að eiga við.

Enn og aftur er óvelkominn hátíðargestur stiginn á land - eins og allir hafa þegar bloggað um. Persónulega vil ég bara láta klára svona "vandamál" strax, skjóta dýrið og láta heiminn vita af því að við bíðum ekki eftir því að það drepi mann eða annan.

Mér finnst það óþolandi þegar fólk byrjar að vola um hve sætur og fallegur og ljúfur og einmanna og svangur og blablabla kvikindið er - þetta er villidýr sem drepur það sem verður á vegi þess ef það er í þannig skapi, ert þú tilbúinn að taka þá áhættu? Allir sem eru á móti svona drápi myndu umvarpast í hamagangi yfir því að dýrið hafi ekki verið drepið ef einhver þeim tengdur lenti í klóm bjarnar, er það þess virði að hætta á slíkt? Nei, ekki að mínu mati.

 

siglufjordur

Þessi mynd er tekin á siglufirði og tengist ekki beint því sem ég ætla að skrifa hér.

En, Aldursmörk á útihátíðum eru að mínu mati stundum nauðsynleg. Ég hef í nokkur skipti verið á flakki um landið og gist á tjaldsvæðum víða. Undantekningalaust hefur verið mjög mikið ónæði vegna ölvunar og óláta af hendi ungra drykkjumanna/kvenna. Ég er ekki að segja að allt ungviði okkar sé með slíkan hamagang, bara að það er áberandi að þeir sem hafa ekki þroska til - drekka sig út úr kú og standa svo í slagsmálum og hamagangi sem er öllum gestum tjaldsvæðanna til ama. Það er stundum því bráðnauðsynlegt að stetja mörk einhversstaðar, annað hvort aldursmörk - eða hreinlega bara banna áfengi á tjaldsvæðum, sem væri bara miklu betri kostur. Enda eru oft á tíðum mest af barnafjölskyldum á ferðalögum um landið sem gista tjaldsvæði víða um land.

 

storidja

Er það virkilega satt að stóriðjan sé ríkisstyrkt? Framtíðarlandið gefur út skýrslu um opinberan stuðning við stóriðju og gagnrýnir ríkisstyrkta stóriðju.

Lára Hanna Einarsdóttir er með frábæra pisla ætíð hvað verndun flóru Íslands varðar. Skoðið pislana hennar því þeir eru sannarlega þess virði - en linkurinn á þessar nýjustu stóriðjufréttir er í nafninu hennar Láru þarna uppi.

Við þurfum sannarlega að skoða hvert mál vel og vandlega áður en við fljúgum af stað hvað stóriðju varðar, en auðvitað erum við öll með okkar skoðun og álit á þessum málum. Við megum samt ekki missa frá okkur miklar perlur undir stóriðju.

************************

"Fatlaðir bíða vegna skorts á fjármagni. Þjónustuúrræði fyrir fötluð börn eru í ólestri. Óvíst hvar vistheimili fyrir 20 börn á Reykjanesi mun rísa. Yfirfærsla málaflokks fatlaðra til sveitafélaganna er í bígerð."

Hér er þörf á að taka duglega til hendinni. Hvernig væri að hætta að ausa fé í ferðalög á einkaþotum og bitlingum handa ráðamönnum og elítunni - og setja eitthvað af fénu í svona málefni sem líða vegna fjárskorts?

************************ 

fallegargoturFallegt umhverfi er ætíð gleðigjafi. Fallegar götur og falleg hverfi eru til fyrirmyndar og eftirbreytni.

Það er dásamlegt þegar fólk tekur sig saman í sinni götu - eða jafnvel bara í heilu hverfi - og fegrar umhverfið saman. Á sumrin er hægt að koma saman og grilla eða gera sér glaðan dag með hvert öðru og börnum hverfisins.

Til fyrirmyndar eru t.d. samrýndir nágrannar á Melhaganum. Íbúar götunnar koma saman á sumrin og fegra götuna sína með tiltekt og þrifum. Svo er slakað á eftir erfiðið og upp er slegin veisla.

Gata er sameign allra íbúa hennar og maður ætti að vera meðvitaður um að hafa hana öðrum hverfum til eftirbreytni með því að hafa hreinsunardag eða jafnvel daga - á vorin og yfir sumartímann. (Upplýsingar um Melhagann úr 24 stundum í dag)...

************************

En, nú er þjóðhátíðardagur Íslendinga og ég óska ykkur til hamingju með daginn. Farið nú út og gerið eitthvað skemmtilegt því það er af nógu að taka um allt landið. Víða er veður gott og því tilvalið að fara með börn og buru út og njóta samverunnar með fjölskyldunni.

Hér læt ég þessum hamagangi lokið í bili. Verð ekki á ferðinni aftur fyrr en í kvöld og mun þá klára að lesa yfir ykkur sem voruð á ferðinni í síðustu færslu hjá mér - sem og núna þessari - ef einhver hefur eitthvað um eitthvað að segja. Njótið dagsins og njótið þess ef kostur er að vera með fjölskyldunni og gerið eitthvað saman! Ljúfar kveðjur í loftið ...


mbl.is Þjóðhátíð sett á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar maður lemur mann, eða kona kýlir konu ... hver er munurinn? Catfight people ..

Punch

Omg. Ég trúi því ekki að kerlingin hafi gert þetta! Ef hreyfimyndin virkar þá er þetta þvílíkt högg sem sú gamla gaf þeirri yngri að það kæmi mér ekki á óvart þó sú yngri hafi nefbrotnað, úff - svona er ljótt að sjá en það hlýtur að liggja eitthvað alvarlegt að baki.

Hér fyrir neðan eru nokkrar pottþéttar aðferðir til að ávinna sér óþol og fyrirlitningu vinnufélaga sinna. Þekkir þú einhvern sem er svona - eða ertu þú svona sjálf/ur? Þekkir þú fleiri leiðir til að vera óþolandi á vinnustað eða í vinahópnum? Deildu með okkur hinum..

 

1. Talaðu hátt í símann;

Auðvitað vilja allir viðstaddir heyra hvað þú ert hress og skemmtileg/ur og átt auðvelt með að vefja viðmælendum þínum um fingur þér. Talaðu bara nógu hátt svo allir geti lært eitthvað af þér og fyllst lotningarfullri aðdáun á samskiptahæfni þinni. Þeir geta bara haldið áfram að vinna þegar þú ert búinn í símanum.

2. Eignaðu þér heiðurinn af verkum annarra;

Ekki minnast einu orði á að þú hafir fengið hjálp næst þegar yfirmaður þinn klappar þér á bakið fyrir unnið verk. Hópvinna - sópvinna. Miklu betra að láta líta út fyrir að þú hafir gert þetta allt á eigin spýtur.

3. Komdu veik/ur í vinnuna;

Ef þú ert með kvef eða gubbupest skaltu samt mæta í vinnuna og úða vírusum í allar áttir. Vinnufélagar þínir munu þakka þér þegar þeir geta tekið sér langþráðan hvíldardag heima og hangið hálfir ofaní klósettskálinni með næringu í æð.

4. Deildu öllu með vinnufélögunum;

Þú ert óvenju áhugaverður einstaklingur svo vinnufélagar þínir vilja örugglega vita allt um þig. Jafnvel þótt þeim líði kannski örlítið óþægilega þar sem þú dælir yfir þá sögum af kynlífsvandamálum þínum í gegnum tíðina. Einkalíf er ofmetið fyrirbæri.

5. Talaðu mikið um trúmál og pólitík;

Reyndu að koma af stað eins mörgum rifrildum og þú mögulega getur. Reyndu t.d. að komast að því hverjir eru viðkvæmari fyrir guðlasti en aðrir og ögraðu þeim með því að tala vel um Jón Gnarr.

6. Segðu klúra og grófa brandara og heimfærðu þá upp á vinnufélaga þína;

Hvað með það þótt viðkvæmar sálir hrökkvi í kút og þú fáir á þig perrastimpil? Þetta er bara þinn húmor. Sjálfsögð mannréttindi að þú fáir þína útrás eins og aðrir.

7. Sendu ruslpóstinn þinn á alla starfsmenn;

Helltu öllu ruslinu yfir þá í tonnavís - keðjubréfunum, bröndurunum, Nígeríubréfum og undirskriftalistum. Þeir munu hugsa hlýlega til þín í hvert sinn sem þeir ýta á delete-takkann.

8. Tyggðu tyggjó með stæl;

Tyggðu með opinn munninn og sprengdu tyggjókúlur með látum. Slíkt er sem fagur fuglasöngur í eyrum vinnufélaga þinna. Keyptu þér birgðir af Hubba Bubba og geymdu í skrifborðsskúffunni.

9. Komdu verkefnum þínum yfir á aðra;

Góðir stjórnendur þekkja mikilvægi þess að dreifa verkefnum á aðra. Ókey, þú ert kannski ekki í stjórnunarstöðu núna en það er aldrei of snemmt að byrja að hugsa stórt. Hugsaðu eins og yfirmaður. Gerðu helst ekki neitt.

10. Talaðu niður til samstarfsfélaga þinna;

Hroki og yfirlæti gerir þig sterkari og gefur öðrum til kynna að þú ert yfir þá hafin/n. Láttu þér í léttu rúmi liggja þótt þeir fyrirlíti þig, hlæi að þér og bjóði þér aldrei í partí. Þú ert betri en þeir.

Starfsmannaleiðindatippsin fékk ég í 24 stundum, laugardaginn 14 júní 2008.

*********************

Já, það er örugglega kalt á toppnum. Allir þekkja einhvern sem er "skemmda eplið" í hópnum eða í partíhópnum eða vinnustað og jafnvel bara í stigaganginum gæti verið einhver sem er alltaf uppi á móti öllum hinum.

The_Mad_Hatter

Þá er það náttúrulega spurningin um að vera dálítið Dipló í sér - fara af stað með bjartsýni og gleði og tala viðkomandi inná að verða glaðlegri eða meira með í hópnum. Það er endalaust hægt að halda einhverjum "fúlum" alveg endalaust fúlum - en það er líka vel hægt að fara góða leið að þeim fúla og vinna hann/hana með sér og laga þar með móralinn á staðnum.

Ég þekki til yfirmanns sem er algerlega óalandi. Ætíð þegar eitthvað gengur á afturfótunum hjá honum - þá kennir hann undirmönnum sínum um vandann. Þegar brilljant vel gengur - þá eignar hann sér allan heiður - jafnvel þó hann hafi lítið sem ekkert komið nálægt verkinu.

Svona fólk er erfitt að eiga við - en það er alls ekki útilokað samt. Það er hægt að vinna alla með alúð og vinsemd, einlægni og umfram allt heiðarleika og hreinskilni. Það er örugglega kalt þarna uppi fyrir þann sem hagar sér eins og konungur yfir öllum - án þess að vera þess verður.

Málið er líka að það er næsta víst að allir sem svona haga sér eiga örugglega erfitt og bágt, enda trúi ég því varla að nokkur geri sér það að leik að vera með leiðindi og önugheit við samferðamenn sína, eða hvað? Þekkir þú fólk sem er önugt og leiðinlegt að eðlisfari? Hefur þinn hópur/stigagangur/félagskapur/vinna - sinn eigin fýlupúka?

Það fallegasta sem þú getur gert í svona stöðu - er að leggja þína krafta á vogaskálar þess að vera sá góði. Gerðu þitt til að vera góður og glaðlegur mót þeim sem illilega lætur. Reyndu að svara aldrei í sömu mynd og reyndu að finna létta og bjarta hluti til að draga fram þegar þú ræðir við viðkomandi - með því er alltaf möguleiki á að ná þeim fúla í léttara skap. Þannig dreifir þú líka huga þess fúla frá því að vera fúll og færð hann/hana til að hugsa um eitthvað annað.

Brostu á móti þeim fúla - með ljúfu brosi en ekki yfirlætislegu brosi. Bjóddu ætíð góðan dag og segðu alltaf "bless bless og eigðu ljúfan dag".. smá saman mun það ná í gegnum skrápinn. Gerðu góðverk á hverjum degi, það skilar sér alltaf til baka. Gleymdu þér þó ekki í því að gera góðverkin eingöngu með það í huga að fá það margfallt til baka!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Tiger
Tiger

Ég eyði fúlum og neikvæðum athugasemdum - svo það er tímaeyðsla að henda slíkum fjársjóð hingað inn. Verð hérna bara í flugumynd - lítið sem ekkert sem sagt. Þýðir ekkert að bíta af mér hausinn þrátt fyrir það...

***

Þakka öllum innlitið, en það er ekki þar með sagt að þú sjáir mig spora út síðuna þína!

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • jesumynd
  • jesumynd2
  • jesumynd4
  • blómabeðið
  • blómabeðið
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband