Skollinn hafi skrílinn sem svertir góð og lögleg mótmæli!!

     Ok, ég var búinn að ákveða að ég ætlaði ekki að blogga um þetta aftur - og enn síður gera athugasemdir við blogg sem fjalla um þetta - en ég bara er gapandi gáttaður! Ég bara skil ekki svona lagað, hvað er eiginlega í huga þeirra sem taka þátt í svona löguðu. Þetta eru hin einu sönnu skrílslæti, barnaskapur og skólakrakka- gengjaklíkulæti. Vitið þið hvað, ég skammaðist mín þegar ég horfði á þessar aðferðir og þessi barnalæti. Öskrandi og hálf volandi skríll sem var þarna í einum tilgangi - og aðeins einum tilgangi sannarlega - en það var til að "Vera með í látunum, atast í löggunni, sýna hve valdið er í raun mikil valdnýðsla"...

Þetta er það sem ég hef alltaf verið viss um að myndi gerast, að vitlausar aðferðir og ólögleg mótmæli myndu sjóða fram og málefni þau sem átti að mótmæla myndu gleymast í hamagangi þar sem allt myndi snúast um það hve lögreglan er mikil valdaklíka. Engin pælir í því að ef engin (trukkakarlar) hefði brotið lög þá hefði engin lögregla verið sjáanleg.

Skelfilegt að sjá smákrakka, skólakrakka og hálfgerðar "fótboltabullur" æða öskrandi og froðufellandi með orðum sem ekki er hægt að endurtaka - gegn lögreglunni - í þeim eina tilgangi að láta lögreglu ráðast gegn sér fyrir framan myndavélarnar - til að sýna nú almennilega hve mikil valdanýðslan er í raun og veru??? Fjandinn hafi það hvað sumir þarna voru eins og fávitar. Ég er handviss um að stærstur hópurinn sem þarna var saman kominn var á miklum adrenalínskammti - æsingurinn var slíkur að þeir allra mestu bjálfarnir hreinlega skulfu af æsingi, aldrei upplifað svona mikið adrenalín og sannarlega átti nú að láta myndavélarnar ná því augnabliki þegar þeim tókst að storka löggunni nógu mikið til að hún léti ekki lengur vaða yfir sig og handtæki fólk og fleira..

Þetta er það sem Trukkabílstjórar geta þakkað sjálfum sér fyrir að skapa. Engin annar hefur búið til þetta ástand. Ætli þeir átti sig á því að vegna lögbrota þeirra í þessum skrílslátum - hafa þeir valdið því að við - skattgreiðendur - þurfum að borga 60 - 80 lögreglumönnum kaup til að standa vörð um lögin vegna þessara láta? Nei, örugglega ekki - eða þeim er fjandans sama. Hversu margir munu nú hljóta sektir eða fangelsisdóma vegna "mótmælanna" sem trukkakarlar standa fyrir? Eitthvað sem ekki hefði skeð ef allt hefði verið löglegt..

Ég veit að það eru fæstir sammála mér hérna, enda skiptir það engu máli - þetta er mín skoðun og mitt álit. En álit mitt á trukkamönnum í þessum látum er ekki mikið núna - og enn minni er virðing mín fyrir þeim sé ég sá kasta eggjum og grjóti í lögregluna, slíkt er til mikilla minnkunar fyrir viðkomandi fávita. Í upphafi var ég sannarlega með bílstjórum í þessu en svo byrjuðu þeir að fara illa yfir strikið og smá saman hafa þeir gert það að verkum að ég hef engan áhuga á að styðja þá í þessari "baráttu".

Mitt álit er ennþá að ef þeir hefðu gert þetta löglega og á réttum vettvangi þá hefði ég ennþá verið að taka þátt í mótmælunum með þeim. Stóru trukkarnir hefðu átt að leggja við allar bensíndælur á höfuðborginni - kaupa smá bensín til að vera löglega lagðir þar - og hanga svo bara inni á bensínstöðinni í kaffisopa eða fá sér kók og súkkulaði - en hreyfa sig hvergi. Þá hefði allt verið löglegt og friðsamlegt, já enda engin að brjóta lög og engin að trufla umferð á götum úti. Þá hefðu þeir séð til þess að hæðstu toppar olíufélaganna hefðu strax farið að ókyrrast og þokkalega hefðu þeir ekki setið lengi á meðan ekkert besnín - og eða olía væri að seljast. Þeir færu næsta víst strax af stað til að gera eitthvað í málunum og hefðu herjað á stóru toppana í landsstjórninni og þar með hefði boltinn rúllað hratt af stað án þess að allir óróaseggir landsins streymdu til að vera með skrílslæti og óróa.

Nýjustu fréttir herma að eitthvað sé um að trukkakarlar af landsbyggðinni séu á leið í bæinn til að taka þátt í þessum látum. Bílstjórar - opnið augun. Mótmælið á réttum stað - í stað þess að framkalla svona æsing gegn vitlausum aðilum. Allir þeir sem "þola" ekki lög og reglu - munu sameinast í að nota ólögmæt mótmæli til að atast í lögreglunni til að "vera með" en bara í heimsku og adrenalínæði... Ég styð mótmælin á rétta staðnum og mun koma með minn bíl - leggja honum hjá ykkar og vera sáttur og glaður með lögmæt mótmæli sem væru án fávita sem æða áfram með öskrum og hamagangi sem engu skila.

Þið megið athugasemdast eins og þið viljið hérna, við höfum mismunandi skoðanir og er þetta algerlega mín skoðun hérna. Mín skoðun er auðvitað mín - hún er ekkert endilega réttust og ekkert endilega röngust - þannig séð - hún er bara mín eigin og ég hef allan rétt á því að hafa þessa skoðun. Ég veit um marga sem sjá ekkert nema bara hvað löggan er vond hérna - en engin virðist sjá að það eru lögbrot og svona uppákomur sem skapa það að löggan gengur fram í því að halda lögum réttu megin. Engin virðist horfa á að svona mótmæli - ef mótmæli skal kalla - eru löngu komin út fyrir það sem málið raunverulega snýst um. Borgarar og bílstjórar - látum ekki æsa okkur upp í að taka þátt í rugli ein og því sem fram fór í dag! Sýnum lögum virðingu - sýnum lögreglumönnum virðingu. Sýnum samstöðu á löglegan hátt og á réttum vettvangi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

eitt sinn vann ég á veitingastað/bar. þar vandi komur sínar maður að nafni Sturla (ekki trukkakarlinn samt).

hann drakk alltaf sama magn að bjór áður en hann fór heim að sofa og við vertinn skilgreindum það magn sem eitt Stull. Stull var tiltekinn fjöldi bjóra sem auðveldlega mátti umreikna í krónur, þar sem hann drakk alltaf sömu tegundina og því fastur kostnaður.

en svona í ljósi þess að það sé [annar] Stulli sem sé í forsvari fyrir trukkakarlana. Hve mörg Stull ætli kostnaðurinn sé af þessu og hve mörg Stull vilja þeir fá niðurfellt af olíuverði?

Brjánn Guðjónsson, 23.4.2008 kl. 20:19

2 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

knús á þig vinur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 23.4.2008 kl. 20:22

3 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Þau eru líklega orðin býsna mörg Stullin sem þetta er farið að kosta þjóðarbúið lesist: okkur ! Og Högni minn, ég er algerlega sammála þessum pistli !

Jónína Dúadóttir, 23.4.2008 kl. 20:22

4 Smámynd: Tiger

Flottur Boxer, eins og alltaf. Ég er hræddur um að það séu fáir að pæla í því í raun og veru hvað þessi læti öll kosta okkur skattgreiðendur, peningur sem hefði mátt fara í mun meira aðkallandi verkefni. Hefði löglega verið að staðið væri til slatti af fé í ríkiskassanum - sem núna er fokið út í skrílslæti í umferðinni, takk Trukkabílstjórar. Æi, ég er ekki með svona látum..

Linda mín.. kramerí til baka á þig ljúfan.

Tiger, 23.4.2008 kl. 20:25

5 Smámynd: Tiger

Jónína mín... takk. Gott að vita að ég er ekki alveg einn á þessari skoðun. Þjóðarbúið græðir ekkert á þessu, stóru olíurisarnir eru að græða hérna og glotta af okkur. Með lögum ættu mótmælin að byggjast - þannig væru þau sterkust og þannig þyrftu þau ekki að kosta útkall 60 - 80 manns sem væru til að reyna að halda fólki réttu megin við lögin. Ég styð mótmæli - en ekki skrílslæti.

Tiger, 23.4.2008 kl. 20:29

6 identicon

Tiger eigum við að vera sammála þvi að vera ósammála ?

Ég get ekki tekið undir þetta með þér, en ég skal virða þína skoðun.

Knús á þig

Guðrún B. (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 20:51

7 Smámynd: Tiger

Guðrún mín... já - við erum sammála um það! Ég virði líka þína skoðun að fullu! Ég virði þig á alla kanta reyndar... en það er önnur ella samt. Knús í klettana sæta og fallega "Flezk"! *glotterí*.

Tiger, 23.4.2008 kl. 20:56

8 identicon

Kostar og kostar, er ein af þeim sem keyrir daglega þessa leið ásamt vinnufélögum. Í dag vorum við á mínum bíl svo hann var öruggur en samstarfsfólkið með áhyggjur í allan dag af eignatjóni og þau ekki einu sinni á staðnum. Bílarnir sluppu en spenna og kvíði höfðu sitt að segja þegar kom að vinnuframlagi.... hvað eru það mörg stull?

knús á þig og takk fyrir veturinn!

Ofurskutlan, sem væntanlega verður betri í skapinu með hækkandi hitastigi :)

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 20:58

9 Smámynd: Tiger

Já Ofurskvísa. Skil vel kvíða vinnufélaga þinna í dag, hefði ekki verið gaman ef einhver úr múgæsingahópnum hefði t.d. kastað grjóti í glugga og kennt löggunni um. Hvað veit maður hvað getur gerst þegar adrenalínið flæðir - sýndi sig í dag að það eru margir sem ráða ekki við sig, og ég meina ekki lögregluna! Þakka þér sömuleiðis veturinn ljúfan og bloggumst saman í sumar..

Tiger, 23.4.2008 kl. 21:05

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Ég er sammála öllu sem þú skrifar hér að ofan. Hvers konar fyrirmynd er það fyrir ungt fólk í þessu landi að óvirða lögreglu með þessum hætti. Agaleysi er vandamál okkar Íslendinga og ungu kynslóðarinnar, þetta bætir það ekki.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 23.4.2008 kl. 21:16

11 Smámynd: Tiger

Þar er ég reyndar algerlega sammála Jóhanna, þetta er langt í frá góð fyrirmynd og alls ekki gott að ala upp óvirðingu fyrir laganna vörðum. Helst hefði ég viljað að farið væri í að skoða myndir af þessum atburðum öllum - og allir þeir sem finnast grýtandi eggjum eða steinum verði dregnir til og sektaðir fyrir vikið. Hvað heldur þessi múgur eiginlega? Að það séu frímínútur og allir í snjókast úti á skólalóðinni? Margt sem ég sá þarna í dag flokka ég undir óþroska og barnaskap, og það voru sko engin börn þarna að verki!

Tiger, 23.4.2008 kl. 21:20

12 Smámynd: Anna Guðný

Mér finnst þessi pistill þinn alveg frábær. Sammála hverju orði. Ég er bara ekki eins góð og þú að koma orði að því. Þannig að takk takk fyrir að lesa hugsanir mínar.

Anna Guðný , 23.4.2008 kl. 22:52

13 Smámynd: M

Veit ekki hvað ég á að segja. Styð þá heilshugar þó ég sé ekki fyrir ofbeldið sem komið er í málið. Tek svolítið "Ragnar Reykásinn" á þetta, enda vog.

Gleðilegt sumar

M, 23.4.2008 kl. 23:11

14 Smámynd: Brynja skordal

úff mikið var ég glöð að kíkja hér inn núna þú bjargaðir restinni á þessu síðasta kvöldi vetrar þú hugsar eins og ég komst því á blað Húrra Húrra Húrra takk fyrir góð skrif svo sammála takk fyrir skemmtilegar færslur í vetur og Gleðilegt sumar

Brynja skordal, 23.4.2008 kl. 23:14

15 Smámynd: Tiger

Anna Guðný: Þakka þér, málið er bara að byrja á að skrifa það sem skoppar upp í hugann, halda svo bara áfram og skoða í restina hvað maður hefur sett frá sér og vingsa út það sem er ekki alveg að gera sig.. ég skrifa bara og skrifa og stundum man ég varla hvað ég hef sett fram í byrjun.

Helga mín; Svo satt, með lögum skulum við land byggja og upp ala æskuna með virðingu fyrir lögum og reglu. Sömuleiðis gleðilegt sumar ljúfan og takk fyrir veturinn.

EMM; Ragnar Reykás er oft mjög flottur og hans taktík er líka oft góð - hey - ég er sko líka vog! Gleðilegt sumar ljúfan.

Brynja mín; Þú hefur líka oft bjargað deginum sko - minna má ég nú ekki gera en að reyna að vera aðeins léttur á því svona í lok vetrar. Þakka þér líka skemmtilegar færslur og góð orð í vetur - og gleðilegt sumar stúlkukind!

Tiger, 23.4.2008 kl. 23:31

16 Smámynd: Huld S. Ringsted

Ég er sammála þér í sumu en öðru ekki. Skríllinn sem stóð fyrir þessu eggja og steinakasti eyðilagði fyrir trukkabílstjórunum. Bílstjórarnir hafa ekki verið að vera með nein læti því skil ég ekki til hvers sérsveitin var kölluð til strax í byrjun, hef ákveðnar hugmyndir um það eins og það að skipunin hafi komið frá efstu mönnum (ráðherrum) því að þessar aðgerðir eru pínlegar fyrir þá og þetta hjálpar BB að réttlæta stofnun á "einkaher".

Ég styð bílstjórana algjörlega og vildi óska þess að almenningur allur gerði það líka. Íslendingar eru alltof gjarnir að láta traðka á sér án þess að segja orð nema við eldhúsborðið heima hjá sér og þar virkar það alls ekki.

Knús á þig Tící minn og gleðilegt sumar

Huld S. Ringsted, 23.4.2008 kl. 23:46

17 Smámynd: Steingrímur Helgason

Hmm,,,,

Við erum búnir að sambloggeríast um það víða að trukkalezzurnar þessar ættu frekar að mótmæla á réttum vettvangi, það er, ekki blokka traffíkina fyrir hinn almenna borgara, heldur leggja frekar fyrir bensínstöðvar & viðkomandi ráðuneyti sem að þeirra málefnum stýra.  Enda skapar það úlfúð & er hættulegt fyrir almennt öryggiskerfi samlandans, með tilliti til slökkviliðs-, lögreglu-, & sjúkrabíla.


Krakkaskríllinn sem að hópast þarna að, af því að þetta er svona einhver ~tölvuleikur~ í raunheimum er bara svona illa af okkur upp alinn að haga sér eins & hann gerði.  Ætti nú að vera tilefni til að foreldrar skelltu nú aðeins undir rófuna á þeim, en það er víst bannað í dag.  Skýrir enda líka að miklu leiti þennann flótta úr kennarastéttinni, en að er nú önnur saga.

En, það er ekki taug í mér sem eitthvað hvert annað þrælbein að ég verji þessar aðgerðir lögreglunnar hans Bángsa Bángsasonar í dag, elsku kallinn minn.

Þegar brúkað er táragas á fólk, fyrir að vera á staðnum & haga sér eins & það búi í frjálsu ríki, sem að á að umbera það að fólkið vilji mótmæla á sinn hátt, hvort sem að það er að gera það á réttum forsendum eða röngum, á réttum stað eða röngum, þá er hreinlega eitthvað að, sem að mismunandi sjónarhorn á fréttaskot breyta engu um mína skoðun um.

Enda vil ég nú fækka flutníngabílum á þjóðvegunum, en þessi aðferðarfræði um að setja þá í einhverja gíslíngu hugnast mér ekki.  Enda niðurstaðan fyrir mér er sem sú, ég er meira en minna efnislega ósammála mótmælunum í heildina litið, ég er ekkert hrifinn af aðferðarfræðinni í mótmælunum, ég er ekkert heldur hrifinn af ungum æsíngarmúgnum, hvað þá þeim í þeirra hópi sem að mæta í fyrrum einkennisbúningi haturs & illvilja.  Liggur við að ég skammist mín fyrir stúdentsprófið úr þeirra skóla.


En, ég styð rétt til friðsamlegra mótmæla, hvar sem er, hvenær sem er, hvort sem að ég er sammála tilefninu í raun eða ekki, & mig að öngvu varðar hvort að þau séu einhverjum lögspekíngum löglegri sem ólöglegri en önnur.


Fólk á að fá að halda sinni skoðun fram með mótmælum, hvort sem að mér eða þér eða meðalJóni & HenniGunnu finnst hún rétt eða röng, án þess að vera beitt harðræði, táragasi eða handtökum.


"Gjör rétt, líð ei órétt", þjóð mín góð.

Hmm, lángt mal, skelli því inn á mitt auma bloggeríi með...

Steingrímur Helgason, 23.4.2008 kl. 23:50

18 Smámynd: Tiger

Huld mín; Ég virði skoðun þína fullkomlega. Ég skil hana líka - enda myndi ég styðja góð mótmæli heilshugar og 100% ef þær væru löglegar. En það er satt, skríllinn sem mætti þarna á svæðið gerði hlutina enn verri. Ef bara hefði verið um bílstjóra að ræða  þarna þá hefði allt verið leyst með friðsemd. Því ættu lögin að skoða myndbönd og hafa uppi á þeim sem mest höfðu í frammi læti og refsa þeim eða sekta. En, ég virði þína skoðun Huld mín algerlega. Gleðilegt sumar ljúfan og takk fyrir skemmtilegan bloggvetur.

Steingrímur minn; Já, við höfum nokkuð mörg núna verið sammála með þá góðu aðferð að blokka sölu á bensínstöðvum. Held að ég hafi séð þá hugmynd fyrsta hjá þér meira segja. Við erum þó algerlega á sama máli að ég styð líka fullkomlega friðsamleg mótmæli - en ég vil þó að þau séu ætíð algerlega lögum fylgjandi. Gleðilegt sumar krúttmoli.

Tiger, 24.4.2008 kl. 00:08

19 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég held að lögreglan hafi fyrirfram ákveðið að nú ætti að láta sverfa til stáls, miðað við fjölda þeirra og viðbúnað, það er nú bara mín skoðun

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.4.2008 kl. 01:24

20 Smámynd: Solla Guðjóns

Ég er sammála að aðferðarfræðin er röng hjá þeim.En ég skil afstöðu þeirra fyllilega en skil ekkert í ráðamönnum að hafa ekki fyrir löngu tekið til greina beiðni þeirra til lagfæringa.þetta byrjaði ekki á þessum mótmælum.Mótmælin byrjuðu því þeim hefur ekki verið ansað með neitt sem þeir hafa haft fram að færa.

Solla Guðjóns, 24.4.2008 kl. 15:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Tiger
Tiger

Ég eyði fúlum og neikvæðum athugasemdum - svo það er tímaeyðsla að henda slíkum fjársjóð hingað inn. Verð hérna bara í flugumynd - lítið sem ekkert sem sagt. Þýðir ekkert að bíta af mér hausinn þrátt fyrir það...

***

Þakka öllum innlitið, en það er ekki þar með sagt að þú sjáir mig spora út síðuna þína!

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • jesumynd
  • jesumynd2
  • jesumynd4
  • blómabeðið
  • blómabeðið
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband