Veðurbreytingar - minningar tengdar veðri.

Hjálpi mér hvað ég er orðinn leiður á veðurfari okkar ástkæra, ilhýra en afskekkta og hundleiðinlega skeri. Mikið vildi ég að hægt væri að klippa á ræturnar undir Íslandi, skella mótor á vestfirði og sigla skerinu fast upp að kanaríeyjum, þar sem við myndum sækja sól og sumaryl - eða mótor á austurland og sigla hratt í átt að Grænlandi, þar sem við gætum sótt góða og hefðbundna vetur í snjó, kulda og birtu sem snjórinn skapar ætíð. Burt með allar stórar umhleypingar og inn með fastan kulda eða fasta sól.

Mikið er leiðinlegt að sjá þegar fallega fallinn snjór - sem upplýsir jörðina og umhverfið - hverfur næsta dag í rigningu og hláku. Og til að bæta gráu á svart þá frystir svo aftur að lokinni góðri dembu og því flughált og hættulegt að vera á ferðinni.  

Ég væri til í að hafa drifhvítan snjóinn yfir öllu frá t.d. fyrsta Nóvember og allt fram yfir Páskana. Bara fallega fallinn marrandi snjór yfir öllu og engar miklar veðrabreytingar eins og umhleypingar á milli snjókomu, rigningu - sólar og hita yfir í frost og kulda. Þó vetur konungur myndi halda velli yfir dimmustu mánuðina, þá væri það ekkert mál - maður myndi bara klæða sig upp, dúða sig í hlý föt og njóta þess að geta með góðu sanni stundað t.d. skíði, skauta, snjósleða og fleiri góðra afþreyjandi vetraríþrótta.

Ég man þá tíð þegar ég var lítill drengur, bara rétt að byrja að festa minningar í huga mér og taka eftir öllu og öllum í kringum mig. Man eftir föður mínum klæða mig upp í kuldagalla og taka út snjóþoturassinn minn og skautana sína. Man eftir því að hafa verið dreginn á þoturassi niður að stóru auðu svæði sem var rétt við götuna mína í gamlu góðu dagana. Man eftir gamalli síldartunnu sem var við stórt og mikið skautasvellið sem slökkviliðið gerði með því að sprauta heilmiklu vatni á svæðið svo úr varð mikið, en grunnt, lón sem áður en varði varð að fallegu skautasvelli.

Þarna á síldartunnunni sat ég löngum yfir vetramánuðina í uppvextinum og horfði á föður minn vinna ýmis þrekvirki - að mínu mati - á flottu skautunum sínum, sem þó voru ekki með neinar tennur. Þarna lærði ég sjálfur að skauta í fangi föður míns, lærði að renna mér, skrenza, bakka og ýmsar aðrar kúnstir. Þarna lærði ég að meta það hvað vetrarveður geta verið dásamleg þó köld og dimm geta sannarleg verið.

Ég minnist þaðan - í vetrarkulda og snjó - einnig þegar ég skautaði með félögum og vinum, sem og skólasystkynum, í stórfiskaleik og ýmsum skemmtilegum þrautaleikjum - eins og að stökkva yfir síldartunnuna góðu sem ég hafði setið og horft á sömu leiki nokkrum árum áður - en þá var  það faðir minn sem stökk yfir eitt og annað og fáir náðu honum í "klukk" eða "fiskur".  Ég minnist þess líka þegar ég fór í fyrsta sinn með litlu systur mína þangað. Dróg hana á snjóþoturassinum mínum gamla en sjálfur kominn á fína skauta sem faðir minn hafði átt sem lítill drengur sjálfur. Man eftir því að halda höndum fyrir aftan bak, með tauma þoturasssins í höndunum - halla mér fram og spyrna niður fótunum og ætla mér að taka duglega af stað á svellinu með systur mína í eftirdragi - missa tauminn og skella með miklum hvelli á andlitið á svellið. Missa báðar nýju framtennurnar mínar og liggja þarna grátandi, tannlaus og fúll yfir því að systir mín litla skyldi hafa séð muninn á mér og föður okkar á skautavettvanginum.

Minnist þess líka að þegar vora tók og grundirnar fóru að gróa og grænka - að móðir okkar fór með okkur á sama stað til að kenna okkur sömu leikina, stórfiskaleik og fleiri góða leiki sem stundaðir voru af öllum í hverfinu, bæði á vetrum sem og á sumrum.

Í þá daga stóðu kuldadagar mun lengur, skautasvellin voru lengur á lífi og lífið snérist um að fara í skólann, læra heima eftir skóla og fara svo beint á skautasvellið - eða upp í brekkuna heima og renna okkur á snjóþotum á fleygji ferð í átt að skellihlægjandi börnum sem klöppuðu og fylgdust með því hvort við dyttum af á leiðinni eða næðum heilu og höldnu alla leið niður. Man eftir því að sumir áttu svo bágt að eiga ekki snjóþotu - sem var lífsnauðsyn í þá daga - svo við skiptumst á að leyfa þeim að renna sér niður með okkur.

Núna er öldin allt önnur. Umhleypingar í veðri, skautasvell eru varla skautahæf nema einstaka sinnum - nú eða bara "inni". Börnin fara í skólann - kannski - læra lítið og sjaldan heima - og hlaupa svo út í sjoppu hverfisins eða beint í tölvuna í leiki og blogg.

Mikið vildi ég að veðrátta, lífið og tilveran - ásamt örygginu á landinu - væri aftur eitthvað í áttina sem áður var. Mikið vildi ég að yfir veturna væri kalt, snjór og bjart. Heilbrigð börn að leik í brekkum og á ísi lögðum svæðum og sama hamingja og þá var yfirleitt alltaf ráðandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Tiger
Tiger

Ég eyði fúlum og neikvæðum athugasemdum - svo það er tímaeyðsla að henda slíkum fjársjóð hingað inn. Verð hérna bara í flugumynd - lítið sem ekkert sem sagt. Þýðir ekkert að bíta af mér hausinn þrátt fyrir það...

***

Þakka öllum innlitið, en það er ekki þar með sagt að þú sjáir mig spora út síðuna þína!

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • jesumynd
  • jesumynd2
  • jesumynd4
  • blómabeðið
  • blómabeðið
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband